Erlent

Blóðugir bardagar í Kaupmannahöfn

Óli Tynes skrifar

Danska lögreglan hefur í morgun beitt táragasi og kylfum til þess að koma í veg fyrir að mótmælahópar réðust inn í Bella Center þar sem Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram. Fjöldi mannna hefur verið handtekinn.

Hálfgert upplausnarástand hefur ríkt í Kaupmannahöfn frá því ráðstefnan hófst og hefur skipulag hennar verið mjög gagnrýnt.

Gríðarlegar biðraðir hafa myndast við Bella Center þar sem fólk sem átti að sitja ráðstefnuna hefur þurft að bíða í brunagaddi í allt upp í átta klukkustundir eftir því að komast í gegnum öryggisgæslu.

Þá hafa allskonar mótmælahópar efnt til óeirða. Danska lögreglan hefur tekið þétt á þeim málum og hundruð manna verið handteknir og geymdir í sérstökum búrum.

Fram til þessa hefur lögreglan haft fulla stjórn á málum. Ráðstefnunni lýkur á föstudag og nú streyma þjóðarleiðtogar til Kaupmannahafnar til þess að setja lokafundinn.

Mótmælendur höfðu einsett sér að yfirtaka Bella Center og réðust til atlögu í morgun. Lögreglan var hins vegar föst fyrir að venju og enginn mótmælenda komst að útidyrunum, hvað þá meira.

Erlendar fréttastofur segja að búið sé að reka Connie Hedegaaard sem var forseti loftslagsráðstefnunnar. Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur hafi tekið við af henni.

Búist er við áframhaldandi slagsmálum í Kaupmannahöfn næstu daga.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×