Erlent

Þróunarríkin fá fjárstuðning

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Catherine Ashton, utanríkisfulltrúi Evrópusambandsins, á leiðtogafundinum í Brussel.fréttablaðið/AP
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Catherine Ashton, utanríkisfulltrúi Evrópusambandsins, á leiðtogafundinum í Brussel.fréttablaðið/AP

Leiðtogar hinna 27 aðildarríkja Evrópusambandsins komu sér í gær saman um að verja 2,4 milljónum evra á ári næstu þrjú ár til að hjálpa þróunarríkjum að taka þátt í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Þessi upphæð samsvarar um 450 milljónum króna á ári.

Leiðtogarnir áttu í nokkrum erfiðleikum með að ná samstöðu um þetta framlag á tveggja daga fundi sínum í Brussel. Fátækari ríkin í austanverðri álfunni voru treg til þátttöku, en auðugri ríkin vestan megin lögðu mikla áherslu á að Evrópusambandið verði í forystu í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

Bretar, Frakkar og Þjóðverjar féllust á að greiða mest í þennan sjóð, samtals nærri 1,9 milljónir evra á ári.

Evrópusambandið hafði fyrir fundinn heitið því að draga fyrir árið 2020 úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20 prósent frá því sem var árið 1990, en býðst nú til að auka það upp í 30 prósent ef önnur helstu mengunarríki heims gera slíkt hið sama á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Leiðtogafundurinn í vikunni er sá fyrsti frá því Lissabon­sáttmáli Evrópusambandsins tók gildi um síðustu mánaðamót.- gb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×