Innlent

Réttað yfir meintum höfuðpaur í Papeyjarsmygli utan Íslands?

Helga Arnardóttir skrifar

Hollendingurinn sem talinn er höfuðpaurinn í Papeyjarmálinu svokallaða gæti sloppið við réttarhald hér á landi verði frávísunarkrafa í máli hans samþykkt í Hæstarétti. Sleppi hann við réttarhald verður að öllum líkindum réttað yfir honum í Hollandi eða Belgíu.

Sakborningarnir sex í einu umfangsmesta fíkniefnamáli hér á landi voru allir mættir í Héraðsdóm Reykjavíkur til að vera viðstaddir aðalmeðferð sem hefjast átti í dag.

Hins vegar þurfti að fresta henni þar til búið er að taka fyrir frávísunarkröfu Ólafs Arnar Svanssonar verjanda Hollendingsins Peters Rabe. Ólafur telur brot hans ekki heyra undir íslenska refsilögsögu og því geti dómstólar hér á landi ekki tekið efnislega afstöðu í málinu.

Í ákæru segir að Peter Rabe og Rúnar Þór Róbertsson hafi siglt með fíkniefnin á skútunni Sirtaki frá Belgíu 18. apríl síðastliðinn. Slöngubátur hafi svo mætt skútunni innan við 30 sjómílur suð austur af landinu. skammt frá Papey þar sem fíkniefnin voru flutt milli báta.

Íslensk refsilögsaga nær 12 sjómílur frá landi og á íslenska ríkið réttað yfir hverjum þeim sem fremur lögbrot á því svæði. Í greinargerð Ólafs segir að engar sannanir séu fyrir því að Peter Rabe hafi komið inn fyrir íslenska landhelgi. Getgátur séu um að skipti fíkniefnanna hafi átt sér stað 30 sjómílur frá landi sem er um átján sjómílur fyrir utan íslenska landhelgi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×