Eftir að írönsk yfirvöld hófu að takmarka aðgang vestrænna fjölmiðla að mótmælunum í Íran hafa samskiptasíður á borð við Twitter og Facebook orðið ómetanlegar. Sérstaklega eru síðurnar mikilvægar fyrir Bandaríkjamenn sem eiga engin stjórnmálatengsl við Íran og eiga bágt með að fylgjast með ástandinu í landinu.
Bandarísk yfirvöld hafa getað nálgast upplýsingar um ástandið í gegnum samskiptasíðurnar. Meðal annars hafa bandarísk yfirvöld komist á snoðir um ólögmætar handtökur og yfirheyrslur íranskra yfirvalda í gegnum Twitter.
Mikilvægi Facebook og Twitter er þvílíkt að bandarísk yfirvöld hafa lagt á það áherslu við stjórnendur síðnanna að þær haldist uppi. Meðal annars var reglubundnu viðhaldi á Twitter frestað til að vefurinn liggi ekki niðri þegar hans kann að vera þörf.
Vestrænir fjölmiðlar á borð við CNN segja það lykilatriði í fréttaflutningi frá svæðinu að vakta samskiptasíðurnar.