Yfirlýsing lá fyrir um það í morgun að Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segði af sér sem borgarfulltrúi og Margrét Sverrisdóttir kæmi inn til þess að mynda Tjarnarkvartettinn á ný. Óskar Bergsson hafði úrslitaáhrif í málinu og valdi að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta segir Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri - grænna.
Vísir greindi frá því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðisflokksins, hefði slitið meirihlutasamstarfi við Ólaf F. Magnússon borgarstjóra fyrr í dag. Ákveðið var að ganga í samstarf með Óskari Bergssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Verður Hanna Birna borgarstjóri, Óskar formaður borgarráðs og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson foresti borgarstjórnar.
Aðspurð um viðbrögð við þessu segir Sóley að Óskar verði að svara því hvers vegna hann hafi tekið Sjálfstæðisflokkinn fram yfir Tjarnarkvartettinn. „Þetta veldur að sjálfsögðu vonbrigðum því Tjarnarkvartettinn vann ofsalega vel saman. En þetta var hans ákvörðun," segir Sóley.
Hugmyndin um Tjarnarkvartettinn var rædd á fundi minnihlutans fyrir fund borgarrráðs í morgun og biðu fulltrúarnir í minnihlutanum eftir því að Óskar ákveddi sig. Sóley segir að Óskar hafi ekki haft samband og skýrt frá ákvörðun sinni.