Erlent

Samkynhneigðum Írana neitað um hæli

Íranar hafa tekið fjölda samkynhneigðra af lífi.
Íranar hafa tekið fjölda samkynhneigðra af lífi. MYND/AFP

Samkynhneigður Írani sem segir að hann verði tekinn af lífi ef honum verði vísað frá Hollandi hefur verið neitað um hæli þar. Mehdi Kazemi hefur sagt að líf hans sé í hættu ef hann verði sendur aftur til Íran þar sem hann segir að yfirvöld hafi tekið kærasta hans af lífi vegna samkynhneigðar. Kærastinn gaf yfirvöldum upp nafn Kazemi áður en hann var líflátinn.

Samkynhneigð er ólögleg í Íran og Mahmoud Ahmadinejad forseti hefur lýst því yfir að samkynhneigð sé ekki til í landinu.

Hollenskur talsmaður sagði að Kazemi yrði sendur til Bretlands sem er fyrsta evrópska landið sem hann kom til. Umsókn um hæli í Bretlandi hefur þegar verið hafnað.

Mál Kazemi hefur orðið til herferðar fyrir réttindum samkynhneigðra í Evrópu. Hinn 19 ára gamli Írani sagðist hafa farið til Bretlands árið 2005 til að læra ensku. Hann komst að því að elskhugi hans í Íran hefði verið tekinn af lífi vegna samkynhneigðar sinnar samkvæmt heimildum Borg Palm lögmanns Kazemi á BBC.

Eftir að hælisbeiðni hans var neitað flúði hann til Hollands árið 2006 þar sem hann komst naumlega hjá því að vera sendur aftur til Íran. Innflytjendayfirvöld í Hollandi eru mildari gagnvart samkynhneigðum Írönum sem fá sérstaka stöðu vegna afstöðu til homma í heimalandi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×