Erlent

Móðir sökuð um vanrækslu eftir morð dótturinnar

Fiona MacKeown heldur á mynd af dóttur sinni Scarlett sem var myrt.
Fiona MacKeown heldur á mynd af dóttur sinni Scarlett sem var myrt. MYND/AFP

Móðir breskrar unglingsstúlku sem var nauðgað og myrt í Goa á Indlandi segist ekki hafa yfirgefið dóttur sína, en hún er nú sökuð um vanrækslu. Scarlett Keeling var 15 ára þegar hún fannst látin á Anjuna ströndinni að morgni 18. febrúar. Hún var í bikinibrjósthaldara einum fata sem búið var að draga upp. Móðirin Fiona MacKeown hafði skilið Scarlett eftir í umsjá fjölskyldu kærasta dótturinnar á meðan hún og hin börn hennar fóru í þriggja vikna ferðalag til næsta héraðs.

Í viðtali við Sky sjónvarpsstöðina sagði hún að henni fyndist hún bera ábyrgð á því að treysta um of á aðra, en henni fyndist hún ekki hafa vanrækt dóttur sína.

„Ég talaði við hana í síma þá daga sem hún var ekki með okkur. Hún var hjá góðu fólki sem við töldum að myndi passa hana," sagði hún

Hún telur ákvörðun lögreglu um að rannsaka vanrækslu af hennar hálfu tilraun þeirra til að reyna að beina athyglinni að öðru.

MacKeown hefur haldið því fram að samsæri sé um dauða dóttur hennar. Hin börnin hefur hún sent aftur til Bretlands.

Þá hefur hún krafist þess að indverska leyniþjónustan rannsaki dauða Scarlett tog áformar að dvelja í Indlandi til að fylgja málinu eftir.

Barþjónn sem gengur undir nafninu Samson de Souza hefur verið handtekinn og situr í gæsluvarðhaldi í tengslum við nauðgun og morð Scarlett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×