Erlent

FBI yfirheyrir mann vegna Times Square sprengingar

Tæknideild lögreglunnar rannsakar aðstæður þar sem sprengjan sprakk.
Tæknideild lögreglunnar rannsakar aðstæður þar sem sprengjan sprakk. MYND/AP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur yfirheyrt mann sem sendi bandarískum þingmönnum bréf með mynd af skrifstofu nýliðaskráningar hersins á Times Square. Bréfið þótti grunsamlegt þar sem það var afhent í gær, daginn sem sprengja sprakk fyrir utan skrifstofuna.

Á myndinni af skrifstofunni stóð „Við gerðum það". Þannig vísaði bréfið samkvæmt heimildum CNN til aðferða sem Demókrataflokkurinn ætti að nota til að vinna forsetakosningarnar í nóvember.

Yfirvöld kanna nú mál sem kom upp á landamærum Kanada í New York ríki í síðasta mánuði. Samkvæmt heimildarmanni CNN var einn eða fleiri menn sem fóru yfir landamærin ekki spurðir nægilega út úr. Einn þeirra skildi eftir bakpoka sem í fannst ljósmynd af Times Square. Á þeim tíma þótti ekkert grunsamlegt við fólkið. Ekki er ljóst hvort málið tengist sprengingunni.

Enn er verið að rannsaka öryggismyndband af staðnum sem sýnir reiðhjólamann með hettu sem hjólar að skrifstofunni, gengur að hurðinni, stoppar augnablik og hjólar síðan í burtu. Sprengjan sprakk mínútu síðar.

Í ruslatunnu skammt frá fann lögregla 10 gíra reiðhjól í góðu standi. Verið er að rannsaka hvort það er hjólið sem sést á myndbandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×