Erlent

Íhuga málssókn vegna umfjöllunar um Madeleine málið

Kate og Gerry McCann á leið á fund með lögmönnum sínum í London á síðasta ári.
Kate og Gerry McCann á leið á fund með lögmönnum sínum í London á síðasta ári. MYND/AFP
Lögmenn Kate og Gerry McCann íhuga nú að höfða mál gegn breskum dagblöðum sem þeir telja að hafi fjallað um mál Madeleine á ósanngjarnan og rangan hátt.

Aðallega er litið til útgáfu dagblaða Express Group; The Daily Express, The Sunday Express, The Daily Star og The Daily Star Sunday.

Clarence Mitchell talsmaður fjölskyldunnar staðfesti við Sky fréttastofuna í dag að lögmenn væru í viðræðum og skoðuðu greinar um málið í öllum blöðum. Hann neitaði því hins vegar að stefna hefði verið gefin út.

„Við erum afar óánægð með umfjöllun The Express Group. Við höfum alltaf sagt að hún hafi verið sú versta í öllum slúðurblöðunum," sagði hann.

Hann bætti við að upphæðir sem slegið hefði verið upp í fjölmiðlum væru byggðar á vangaveltum. Express Group hefði ekki boðið að semja utan réttarsala.

Samkvæmt lögum í Bretland má líða ár frá birtingu greinar þar til ákveðið er að fara í mál vegna innihalds hennar. Talið er að lögmennirnir séu að meta umfjöllunina þar sem árið verið runnið upp í maímánuði og þá verði ákvörðun að liggja fyrir.

Mitchell neitaði því að reynt væri að fara þessa leið þar sem helmingur fjármagns í Find Madeleine sjóðnum væri uppurið. Hann sagði ennfremur að kæmu einhverjir peningar inn vegna málsóknar færu þeir beint í sjóðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×