Erlent

Rannsaka hugsanleg tengsl á milli sprenginga

Lögreglan í Ribe í Danmörku hefur handtekið tvo unga karlmenn sem grunaðir eru um að vera viðriðnir sprengingu á matsölustað í bænum Bramming á Jótlandi. Ung kona lét lífið í sprengingunni.

Sprengingin varð rétt fyrir klukkan fjögur að dönskum tíma í nótt. Hún var svo öflug að rúður brotnuðu í allt að 100 metra fjarlægð frá staðnum.

Konan sem lést bjó í íbúð á hæðinni fyrir ofan matsölustaðinn en mikill eldur blossaði upp eftir sprenginuna. Tveir aðrir slösuðust í brunanum en þó ekki alvarlega. Slökkviliði tókst að slökkva eldinn í morgunsárið en byggingin er mjög illa farin og stendur nánast ekkert eftir nema útveggirnir.

Ekki er enn vitað fyrir víst hvað orsakaði sprenginguna en talið er að um viljaverk er að ræða. Vefsíða Jótlandspóstsins greinir frá því að tveir menn af erlendum uppruna hafi verið handteknir í morgun vegna málsins. Lögreglan í Ribe hefur staðfest þessar upplýsingar.

Lögreglan rannsakar einnig hvort tengsl séu milli sprengingarinnar í nótt og eldsvoða sem kom upp á matsölustað í júní í fyrra en sá staður var í eigu afganskrar fjölskyldu. Eigandi matsölustaðarins sem brann í nótt segir hins vegar að hann eigi enga óvini og að allt hafi verið með eðlilegasta móti þegar hann lokaði staðnum í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×