Erlent

Watson segir Japan hafa skotið á sig

Paul Watson ásamt Terri Irwin, ekkju Steves Irwins, við bátinn sem nefndur er eftir krókódílamanninum heitna.
Paul Watson ásamt Terri Irwin, ekkju Steves Irwins, við bátinn sem nefndur er eftir krókódílamanninum heitna.

Paul Watson, leiðtogi samtakanna Sea Shepherd, segir að skotið hafi verið á sig í átökum samtakanna við japanska hvalveiðimenn í suðurhluta Kyrrahafs í morgun. Hann hafi hins vegar komist lífs af þar sem hann hafi verið í skotheldu vesti.

Í samtali við ástralska útvarpsstöð segir Watson að hann og félagar hans á bátnum Steve Irwin hafi kastað fýlubombum um borð í japanskt hvalveiðiskip en japanska strandgæslan hafi svarað með því að skjóta á Sea Shepherd menn. Þessu hafna sjávarútvegsyfirvöld í Japan og segjast hafa skotið hvellsprengjum sem notaðar séu í óeirðum og séu ekki eiginlegt vopn.

Watson og félagar hafa undanfarnar vikur elt uppi japönsk hvalveiðiskip og reynt að trufla veiðar þeirra. Í janúar voru tveir félagar í Sea Shepherd teknir höndum þegar þeir fóru um orð í japanskt skip en var síðar sleppt.

Sea Sherpherd samtökin eru alræmd á Íslandi fyrir að hafa sökkt hvalveiðiskipunum Hvalur sex og Hvalur sjö í Reykjavíkurhöfn í nóvember 1986 og unnið síðan skemmdir á Hvalstöðinni í Hvalfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×