Erlent

Átta nemendur skotnir til bana í biblíuskóla

Átta nemendur biðu bana og níu særðust þegar Palestínumaður hóf skothríð í biblíuskóla í vesturhluta Jerúsalem síðdegis í gær

Samkvæmt frásögn sjónarvotta réðist skotmaðurinn inn á bókasafn skólans og hóf handahófskennda skotárás á nemendur sem sátu þar að lestri. Um tíu mínútur liðu þar til öryggisvörðum tókst að skjóta hann til bana. Þá lágu átta nemendur á aldrinum 15 til 16 ára í valnum og níu aðrir særðust sumir mjög alvarlega. Árásarmaðurirnn mun hafa verð búsettur í austurhluta Jerúsalem.

Mikil fagnaðarlæti brutust út á Gaza svæðinu er fregnir af árásinni bárust þangað og talsmaður Hamas segir að árásin sé hetjudáð. Ísraelsmenn segja að atburðurinn muni ekki draga úr aðgerðum þeirra á Gaza-svæðinu.

Margar þjóðir hafa fordæmt atburðinn og kalla hann ófyrirgefanlegt hryðjuverk. Boðað var til fundar um málið í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og þar lögð fram tillaga um að fordæma árásina. Hún fékkst þó ekki samþykkt þar sem fulltrúi Líbýu í ráðinu og fleiri þjóðir vildu að í tillögunni yrðu árásir Ísraelsmanna á Gaza svæðið einnig fordæmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×