Erlent

Eitra fyrir 100 þúsund hundum

Kona ekur framhjá bíl þar sem búið er að setja flækingshunda í búr í Bangalore.
Kona ekur framhjá bíl þar sem búið er að setja flækingshunda í búr í Bangalore. MYND/AFP

Yfirvöld í Kashmír héraði á Indlandi hafa byrjað að eitra fyrir 100 þúsund flækingshundum í herferð gegn hundaæði í helstu borg héraðsins.

Dýraverndunarsinnard hafa heitið því að taka málið fyrir dóm og stöðva þannig slátrunina í Srinagarborg. Þeir segja að drápin séu ólögleg, öfgakennd og grimmileg lausn á vandamáli sem hægt væri að leysa á annan hátt.

Indland hefur hæstu tíðni dauðsfalla af völdum hundaæðis í heiminum. Yfirvöld hafa beitt ýmsum aðferðum til að ná tökum á þeim milljónum flækingshunda sem lifa á götum borga.

„Hundarnir eru til mikils ama og ógna heilbrigði mannfólksins," sagði Riyaz Ahmad læknir í Srinagar. „Við höfum pantað eitrið og munum dreifa því á stóru svæði. Nú notumst við við það eitur sem við höfum."

Ekki hefur fengist uppgefið hversu marga hunda er þegar búið að drepa en Ahmad sagði við AP fréttastofuna að takmarkið væri 100 þúsund.

Meira en 60 prósent dauðsfalla af völdum hundaæðis í heiminum sem telja um 35 þúsund í allt, verða á Indlandi samkvæmt tölum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Flækiingshundum er oftast kennt um. Á sumum svæðum mynda villihundar hópa og hafa ráðist á fólk. Þrátt fyrir það er litið á hundana sem gæludýr samfélagsins, þeir séu hálftamdir og fái gjarnan mat frá íbúum.

Í Bangalore var hætt við svipaða herferð eftir að 200 hundar lágu í valnum. Þá komu fram ásakanir um að óþjálfaðir starfsmenn hefðu grýtt hundana eða barið til dauða eða kyrkt þá.

Í Nýju Delhi stakk bæjarfulltrúi upp á því að hundarnir yrðu fluttir til Kóreu þar sem hundakjöt er talið hið mesta lostæti.

Herferðinni í Srinagar var ekki hrundið af stað vegna dauðsfalla heldur vegna þrýstings frá almenningi eftir umræðu í fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×