Erlent

Fundu 35 kannabisræktunarstöðvar í Noregi

Fíkniefnalögregla og tollayfirvöld í fleiri löndum rannsaka nú fund á 35 kannabisræktunarstöðvum í Noregi. Stöðvarnar fundust á svæði sem er um 200 kílómetra norður af Osló.

Málið á sér enga hliðstæðu í Noregi en hingað til hafa áttatíu manns verið handteknir og eru grunaðir í málinu. Eru flestir þeirra af víetnömskum uppruna.

Samkvæmt frásögn í blaðinu Verdens Gang ná ræktunarstöðvarnar yfir níu lögregluumdæmi í Noregi en lögregla í fleiri löndum hefur verið kölluð til við rannsóknina þar sem talið er að umtalsverður útflutningur á kannabisinu hafi verið í gangi til annarra Evrópulanda þar með talið Bretlands og Hollands. Lögreglan í Kanada kemur einnig að rannsókn þessari.

Og ekki er talið að öll kurl séu komin til grafar í Noregi því sá sem stjórnar rannsókninni þar, Atle Roll Matthiesen segir að lögreglan telji að fleiri ræktunarstöðvar séu ófundnar enn.

Hver ræktunarstöð samanstóð af einu eða fleirum gróðurhúsum með tilheyrandi tækjabúnaði. Talið er að stöðvarnar hafi verið starfandi um árabil og framleiðsla þeirra hafi numið fleiri tonnum af kannabis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×