Erlent

Obama hvetur Hillary til að gefast upp

Líkur eru á að úrslitin í forkosningunum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum muni ráðast í dag. Kosið er í fjórum ríkjum en allra augu beinast að Texas og Ohio.

Barak Obama segir að Hillary Clinton eigi að gefast upp fari svo að hún tapi í bæði Texas og Ohio. Sjálf segir Hillary að hún muni halda stefnu sinni hver sem úrslitin verða.

Það er þó ljóst að fari svo að Obama vinni í báðum þessum ríkjum mun þrýstingur á Hilary um að hætta frá frammámönnum í Demókrataflokknum aukast að mun. Þeir muni líta svo á að nauðsynlegt sé að sameinast um einn frambjóðenda hið fyrsta þar sem slíkt hafi Repúblikanar þegar gert í raun.

Auk Texas og Ohio er kosið í Vermont og Rhode Island en þar eru mun færri kjörmenn í boði.

Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Obama örlítið forskot á Hillary í Texas en Hillary er sjónarmun á undan honum í Ohio. Á landsvísu mælist Obama með meira fylgi en Hillary.

Hvað Repúblikanaflokkinn varðar er McCain í þægilegri stöðu. Ef kosningar fara eins og skoðanakannanir benda til mun McCain hafa náð nægilegum fjölda kjörmanna til að tryggja endanlega sigur sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×