Erlent

Níu ára fangelsi fyrir að dreifa ruslpósti

Hæstiréttur í Virginíuríki í Bandaríkjunum dæmdi á föstudaginn mann í níu ára fangelsi fyrir að dreifa ruslpósti á Internetinu. Maðurinn var sérstaklega stórtækur í þeim bransa en árið 2003 var hann á topp tíu listanum yfir þá sem sendu flest ruslpósts skeyti. Saksóknarinn sýndi fram á að maðurinn, Jeremy Jaynes, sendi á þriggja daga tímabili 53 þúsund tölvuskeyti með alls kyns tilboðum í júlí 2003. Grunur leikur þó á að Jaynes hafi verið enn stórtækari og er fullyrt að hann hafi sent um tíu milljón skeyti á hverjum degi og að velta hans hafi verið tæpar fimmtíu milljónir króna á mánuði.

Jaynes var ákærður í Virginíu þar sem skeytin fóru í gegnum hýsingarfyrirtæki í ríkinu. Dómsmálið vekur vonir um að hemja megi ruslpóstsendingar á Netinu en það er þó veik von þar sem duglegustu dreifingaraðilarnir, eða spammararnir, eru staðsettir í Rússlandi og Úkraínu. Þar á bæ ná engin lög yfir ruslpóstsendingar þannig að netverjar verða að sætta sig við að fá tilboð um Viagra og annan vafasaman varning enn um hríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×