Erlent

Draga nær allt herlið frá Gaza en hætta ekki árásum

Ísraelar drógu í morgun nær allt herlið sitt frá Gaza-svæðinu. Þeir hafa þó ekki hætt árásum en nærri tvö hundruð Palestínumenn hafa fallið í sprengjuregni Ísraela síðustu daga.

Alþjóðasamfélagið hefur gagnrýnt Ísraela harðlega fyrir að beita orrustuvélum og fótgönguliði gegn íbúum á Gaza. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, hefur hætt þátttöku í friðarferlinu. Ísraelar segja árásir sínar svar sitt við tíðum flugskeytaárásum frá Gaza á ísraelskt landsvæði.

Ráðamenn í Jerúsalem hafa nú kallað nær allt herlið sitt heim frá Gaza en loftárásir héldu samt áfram í nótt og flugskeytum var enn skotið á Ísrael. Olmert forsætisráðherra hótar áfrahaldandi árásum. Þær hafa kostað að minnsta kosti hundrað og tólf Palestínumenn lífið og eru átökin þau hörðustu í langan tíma. Þrír Ísraelar hafa fallið, einn borgari í flugskeytaárás og tveir hermenn.

Tyrkir, sem eru meðal fárra stuðningsmanna Ísraela úr hópi múslima, hafa gagnrýnt þá fyrir aðgerðir sínar. Evrópusambandið einnig. Bush Bandaríkjaforseti segir mikilvægt að aftur verið sest að samningaborðinu og sverðin slíðruð.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanlega til Ísraels á morgun til viðræðna við leiðtoga Ísraela og Palestínumanna. Hennar verkefni er að reyna að miðla málum sem gæti reynst þrautin þyngri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×