Erlent

Neyðarlög sett í Armeníu

Mótmælendur fylgjast með bíl sem stendur í ljósum logum í Jerevan höfuðborg Armeníu.
Mótmælendur fylgjast með bíl sem stendur í ljósum logum í Jerevan höfuðborg Armeníu. MYND/AFP

Neyðarlög hafa verið sett í Armeníu á ellefta degi mótmæla gegn meintu svindli forsetakosninganna. Rober Kocharyan forseti undirritaði tilskipunina til að „forðast ógn gegn stjórnarskrárlegri reglu," er haft eftir forsetanum á fréttavef BBC.

Að minnsta kosti einn er látinn eftir óeirðir dagsins samkvæmt heimildum Reuters fréttastofunnar, en neyðarlögin voru sett eftir að lögregla skaut viðvörunarskotum í loftið til að dreifa mótmælendum. Talið er að fjöldi manns hafi slasast en ekki er ljóst hvort það var vegna skota lögreglunnar.

Serzh Sarkisian forsætisráðherra vann kosninguna gegn stjórnarandstöðuleiðtoganum Levon Ter-Petrosian sem er einnig fyrrverandi forseti og segist vera í stofufangelsi.

Mótmælin hófust að nýju eftir að lögregla hreinsaði Frelsistorgið svokallaða í höfuðborginni Jerevan af mótmælendum sem höfðu búið um sig þar frá úrslitum kosninganna.

Neyðarlögin verða í gildi til 20. mars en stjórnarandstaðan segist munu halda mótmælum áfram.

Opinberar tölur sýndu að Sarkisian hlaut 53 prósent atkvæða í forsetakosningunum en Ter-Petrosian 21,5 prósent.

Alþjóðlegir eftirlitsaðilar sögðu kosningarnar hafa farið lýðræðislega fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×