Erlent

Slanga étur fjölskyldumeðlim

Pýþonslangan lét sig ekki muna um að gleypa fjölskylduhundinn.
Pýþonslangan lét sig ekki muna um að gleypa fjölskylduhundinn. MYND/AP

Fimmtíu kílóa pýþonslanga sat um fjölskylduhund í Queensland í Ástralíu í marga daga áður en hún réðst loks á hann og gleypti í heilu lagi.

Átti atvik þetta sér stað síðastliðinn mánudag, en áhorfendur gátu lítið að gert meðan slangan athafnaði sig. Meðal þeirra voru börnin sem áttu hundinn, fimm ára drengur og sjö ára stúlka.

Sérfræðingar segja að venjulega veiði slöngur villt smádýr en í þéttbýli sé eitthvað um að þeir ráðist á gæludýr. Pýþonslöngur kremja fórnarlömb sín til dauða áður en þær éta þau í heilu lagi. Líklegt er því að hundurinn hafi kafnað innan nokkurra mínútna.

Ekki var hægt að fjarlægja hundinn sem stóð hálfur upp úr gini slöngunnar þegar aðstoð barst þar sem óttast var að klær og tennur hans gætu valdið innvortis áverkum. Býr slangan nú við gott atlæti og meltir hundinn í dýragarði í Kurana. Að því loknu verður henni sleppt á ný út í óbyggðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×