Erlent

Fimm Hamas liðar látnir á Gaza

Ísraelskur hermaður stekkur af skriðdreka.
Ísraelskur hermaður stekkur af skriðdreka. MYND/AP

Ísraelsk flugvél sprengdi sendibíl með Hamasliðum innanborðs í loft upp í dag. Fimm létust þar á meðal eldflaugasérfræðingur og herforingi yfir eldflaugaarmi Hamas. Ap fréttastofan hefur þetta eftir Hamasliða.

Tveir aðrir Hamasliðar slösuðust í árásinni samkvæmt heimildum heilbrigðisyfirvalda á Gazaströnd.

Einungis mínútum eftir árásina skutu Ísraelar á annan bíl í nágrenninu. Vitni segja uppreisnarmenn hafa yfirgefið þann bíl og farið í sendibílinn stuttu fyrir árásina. Engan sakaði í seinni árásinni.

Ísraelski herinn staðfesti að árásinni væri beint gegn bílum uppreisnarmanna.

Ísraelar hafa staðið fyrir endurteknum árásum á Gaza sem hafa orsakað dauða nokkurra palestínskra uppreisnarmanna auk almennra borgara síðustu tvo mánuði. Palestínskar eldflaugasveitir hafa hins vegar skotið eldflaugum inn yfir landamæri Ísraels næstum daglega á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×