Erlent

Tjáningarfrelsi fer minnkandi í Rússlandi

Vladimir Putin forseti og líklegasti arftaki hans, Dmitry Medvedev.
Vladimir Putin forseti og líklegasti arftaki hans, Dmitry Medvedev. MYND/AFP

Tjáningarfrelsi í Rússlandi hefur farið „verulega minnkandi" í forsetatíð Vladimir Putin samkvæmt skýrslu Amnesty International. Í henni segir að morð á berorðum fréttamönnum séu óleyst, sjálfstæðum fjölmiðlafyrirtækjum hafi verið lokað og lögregla hafi ráðist á stjórnarandstæðinga í mótmælaaðgerðum.

Þá segir að „geðþóttalög" hafi verið sett til að hindra rétt á tjáningarfrelsi og þagga niður í áhugahópum sem taldir eru ógna stjórnvöldum.

Skýrslan er birt einungis nokkrum dögum fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í landinu næstkomandi sunnudag, 2. mars.

Kate Allen forstjóri Amnesty International í Bretlandi sagði í viðtali við BBC að það væri áríðandi að þessari þróun yrði snúið við. Mótþrói fréttamanna á borð við Önnu Politkovskaya sem var myrt í Moskvu fyrir tveimur árum, væri afar mikilvægur.

Skýrslan sem er 52 blaðsíður og nefnist Freedom Limited, varar við að mótmælendur gætu átt von á þvingunum og aðgerðum lögreglu fyrir forsetakosningarnar eins og gert hefur verið í aðdraganda kosninga síðustu ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×