Erlent

Grafið eftir Nasistagulli í Þýskalandi

Fjársjóðsleitarmenn munu í dag aftur hefja leit að fjársjóði frá tímum Nasista sem talinn er vera grafinn í suðurhluta Þýskalands. Meðal þess sem talið er að fjársjóðurinn innihaldi eru tvö tonn af gulli.

Talið er að fjársjóð þennan sé að finna í grennd við bæinn Deutschneudorf og hefst uppgröfturinn eftir honum að nýju nú um hádegisbilið. Þýsk yfirvöld stöðvuðu uppgröftinn fyrir viku síðan vegna áhyggna af öryggi þeirra sem stóðu að honum en nú hefur því vandamáli verið kippt í liðinn.

Sónarmælingar hafa sýnt að hellir er undir þeim stað þar sem grafið er og þar vonast fjársjóðsleitarmennirnir eftir að finna fjársjóðinn. Gullið sem um ræðir er ránsfengur nasista úr seinni heimstryjöldinni.

Einn þeirra sem leita að gullinu, Christian Hanisch, vonast til þess að í hellinum séu auk gullsins vísbendingar um hvað varð um svokallað rafherbergi sem nasistar rændu úr Vetrarhöllinni við Pétursborg árið 1941. Herbergið var smíðað úr útskornu eðalrafi og gulli á tímum keisaraættarinnar rússnesku. Hanisch hefur óljósar heimildir um að það hafi verið falið í yfirgefinni koparnámu í grend við Deutschneudorf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×