Erlent

Litlar breytingar með tilkomu Raul Castro á Kúbu

Ekki er búist við miklum breytingum á Kúbu í kjölfar þess að Raul Castro hefur nú formlega tekið við embætti forseta landsins af bróður sínum Fidel.

Bent er á að mennirnir sem Raul hefur valið í embætti varaforseta og varnarmálaráðherra eru báðir komnir yfir sextugt og tilheyra harðlínumönnum í Kommúnistaflokki Kúbu.

Kúbubúar munu hinsvegar finna fyrir breytingum á högum sínum strax þar sem Raul sagði í setningarræðu sinni að slakað yrði á ýmsum höftum á Kúbu á næstu dögum. Fréttaskýrendur telja helst að hér hafi hann átt við hluti eins og ferðafrelsi til almennings til og frá landinu og að opnað verði fyrir internetið í landinu

Raul Castro hefur staðið þétt við hlið Fidel bróður síns allt frá því að þeir hófu baráttu sína gegn Babtista-stjórninni á Kúbu fyrir meir en hálfri öld síðan. Í uppreisninni fékk hann orð á sig fyrir að vera hrottalegur í garð óvina sinna.

Eftir að þeir komust til valda hefur Raul stjórnað og byggt upp herinn á Kúbu. Raul hefur stjórnað landinu frá árinu 2006 vegna veikinda Fidel. Áhrif Fidel eru þó síður en svo horfin við Raul sagði í fyrrgreindri setningarræðu að hann myndi ráðgast við bróður sinn í öllum stærri ákvörðunum sem teknar yrðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×