Erlent

Clinton og Obama þræta í Texas

Obama og  Clinton í Austin í Texas í gærkvöldi.
Obama og Clinton í Austin í Texas í gærkvöldi. MYND/AFP

Hillary Clinton sakaði í gær keppinaut sinn Barack Obama um pólitískan ritstuld í beinni sjónvarpsútsendingu. Obama gerði lítið úr ásökuninni og sagðist standa fyrir öruggum breytingum, aðferð Clinton væri hluti af „bjánalegum" stjórnmálaslag.

Obama hefur unnið Clinton í 11 ríkjum í röð. Kosningar í Texas og Ohio 4. mars verða þannig að falla Clinton í vil til að hún eigi möguleika á útnefningu demókrata fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Kappræðurnar í gær í Austin í Texas voru þannig mikilvægur hlekkur í því að hún nái árangri.

„Ef framboð þitt á að vera um orð, þá verða það að vera þín eigin orð," sagði hún. Þar átti hún við að Deval Patrick ríkisstjóri Massachusetts og stuðningsmaður Obama taki orðagjálfur annarra og geri að sínu eigin í stuðningsræðum fyrir Obama.

Obama brást við með því að segja að þau ættu ekki að gera lítið úr hvort öðru.

Í utanríkismálum gagnrýndi Clinton Obama fyrir að gefa í skyn að hann myndi hitta leiðtoga Kúbu og Íran án skilyrða. Obama svaraði með því segja að Bandaríkjaforseti ætti að teygja sig í átt til beggja landa, en viðurkenndi að undirbúningur slíkra funda væri grundvallaratriði.

Frambjóðendurna greindi einnig á um efnahagsmál og hvernig á að bæta heilbrigðiskerfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×