Erlent

Kallað eftir hærra áfengisverði í Bretlandi

MYND/Getty Images

Samtök lækna á Bretlandi hafa kallað eftir hærri sköttum á áfengi og banni við tilboðum á áfengum drykkjum til að berjast gegn óhóflegri áfengisdrykkju um helgar. Á fréttavef Sky segir að samtökin þrýsti nú á ríkisstjórnina að breyta lögum til að tryggja ábyrg verð á alkahóli.

Matvöruverslunarkeðjan Tesco hefur hefur brugðist við með því að hvetja yfirvöld til að þrýsta á smásöluaðila að hækka verð, en fyrirtækið hefur grætt hundruð milljóna á tilboðsverðum á áfengi. Matvöruverslanir hafa verið gagnrýndar fyrir að selja áfengi með miklum afslætti, stundum jafnvel undir heildsöluverði.

Áhyggjur eru af því að lágt áfengisverð ýti undir óhóflega drykkju sem leiði af sér glæpi og óspektir um helgar í Bretlandi.

Tesco heldur því fram að ríkisstjórnin verði að koma að málinu þar sem matvöruverslunum sé meinað samkvæmt samkeppnislögum að taka sig saman um að hækka verð áfengis. Auk þess myndu neytendur fara þangað sem verðið væri lægst.

Lucy Neville-Rolfe framkvæmdastjóri Tesco sagði að fyrirtækið viðurkenndi að eiga þátt í að leysa vandamál tengd óhóflegri drykkju. Eina leiðin sé að ríkisstjórnin taki á málinu.

Sarah Jarvis heimilislæknir sem sinnir sjúklingum með sjúkdóma af völdum áfengisneyslu sagði Sky að hún styddi tillögur Tesco. Eitt af hverjum átta rúmum í heilbrigðisþjónustu færi undir áfengissjúklinga og 70 prósent tilfella í heilbrigðisþjónustu eftir miðnætti væru tengd áfengi.

Vicqui Thomson einn lesenda fréttavefjar Sky telur þó ósanngjarnt að þeir sem neyti áfengis á ábyrgan hátt séu þvingaðir til að borga meira fyrir. Meirihluti þeirra sem neyti alkahóls séu ekki til neinna vandræða og eigi ekki að vera refsað fyrir það sem minnihlutinn geri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×