Erlent

Stúlka sem sást í Montpellier var ekki Madeleine

Síðasta myndin sem tekin var af Madeleine nokkrum dögum áður en hún hvarf.
Síðasta myndin sem tekin var af Madeleine nokkrum dögum áður en hún hvarf. MYND/AFP
Franska lögreglan segir að stúlka sem sást á veitingastað nálægt frönsku borginni Montpellier hafi ekki verið Madeleine McCann. Hollenskur ferðamaður hélt því fram að hann hefði séð stúlkuna í fylgd karlmanns. Lögregla tók myndir úr öryggismyndavélum veitingastaðarins til rannsóknar.

Eftir rannsókn myndanna kom í ljós að þótt stúlkan líktist Madeleine hafi það ekki verið hún.

Clarence Mitchell talsmaður foreldra Madeleine sagði að ferðamaðurinn sem talið er að sé 18 ára gamall nemandi, hafi gert rétt með því að hafa samband við lögreglu. Ferðamaðurinn hafði veitt stúlkunni athygli af því hún virtist vera að dansa við tónlist úr síma hans. Hann hafði verið svo viss um að stúlkan væri Madeleine að hann hafi kallað nafn hennar áður en maðurinn flýtti sér í burt með hana.

Madeleine sást síðast 3. maí þegar hún hvarf úr sumarleyfisíbúð í Praia da Luz í Portúgal. Foreldrar hennar, Kate og Gerry liggja undir grun af lögreglunni í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×