Erlent

Maó bauðst til að senda tíu milljónir kvenna til Bandaríkjanna

Mao Zedong, fyrrverandi leiðtogi Kína, bauðst til þess að senda tíu milljónir kínverskra kvenna til Bandaríkjanna árið 1973. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum skjölum sem bandaríska utanríkisráðuneytið hefur veitt aðgang að og vitnað er til á heimasíðu breska ríkisútvarpsins.

 

Þar kemur fram að Maó hafi fundað með Henry Kissinger, þjóðarráðgjafa Bandaríkjanna, í febrúar árið 1973 í Peking þar sem meðal annars var rætt um samskipti þjóðanna og hættuna sem stafaði af Sovétríkjunum.

Maó og Kissinger munu hafa gantast mikið á fundinum samkvæmt samtölum sem birt eru með skjölunum. Þannig bauðst Maó til þess að senda tugþúsundir kínverskra kvenna til Bandaríkjanna og hækkaði síðan tilboðið í tíu milljónir, en þetta mun hafa verið brandari hjá leiðtoganum. Engu að síður bætti hann við að kínverskar konur ælu of mörg börn og ef þær yrðu sendar til Bandaríkjanna myndu Kínverjar flæða yfir landið.

 

Þá kvartaði Maó einnig yfir því að kínverskar konur kynnu ekki að berjast þegar rætt var um hættuna af Sovétríkjunum. Síðar baðst leiðtoginn fyrrverandi afsökunar á orðum sínum við kvenkyns túlk sem viðstaddur var fundinn. Hann og Kissinger komust að því að ummæli hans um kvenfólk yrðu afmáð úr skjölunum en svo virðist hins vegar sem Bandaríkjamenn hafi ekki gert það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×