Erlent

Obama gæti komið japönsku fiskiþorpi á kortið

Barack Obama hefur nú naumt forskot á Hillary Clinton eftir að hann hafði sigur á henni í forkosningum í þremur fylkjum í Bandaríkjunum í gær. Obama barst stuðningur úr óvæntri átt á dögunum.

Kosið var um frambjóðendur til forsetakosninganna í nóvember í Maryland, Virginíu og höfuðborginni Washington. Hjá repúblíkönum sigraði John McCain í öllum fylkjum, líkt og virðist hann því sigla hraðbyr að útnefningunni - vantar aðeins tæplega fjögur hundruð landsfundarfulltrúa og fjölmargar forkosningar eftir fram í byrjun júní.

Hjá demókrötum er spennan enn mikil þó Obama hafi sigrað í öllum fyljunum þremur. Samkvæmt CNN hefur Obama nú tólf hundruð og fimmtán kjörmenn eða landsfundarfulltrúa, Hillary Clinton ellefu hundruð og níutíu. Hjá demókrötum þarf minnst tvöþúsund tuttugu og fimm til að fá útnefningu flokksins.

Obama hefur nú haft sigur í síðustu átta forkosningum. Clinton hefur stokkað upp starfslið sitt og segist nú einblína á baráttuna í stærstu fylkjunum sem eftir eru, það er Ohio og Texas. Þar verður kosið 4. mars. Telja stjórnmálaskýrendur að slag hennar verði lokið hafi hún ekki sigur þar.

Obama barst óvæntur stuðningur á dögunum. Þrjátíu og tvö þúsund íbúar í fiskiþorpi í Japan segjast styðja hann til sigurs þó þeir geti ekki greitt honum atkvæði. Ástæðan er jú sú að bærinn heitir Obama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×