Erlent

Tólf hið minnsta látnir í átökum síðustu daga í Kenía

Stjórnarandstæðingar í Kenía hafa boðað áframhaldandi mótmæli í dag, þriðja daginn í röð. Að minnsta kosti 12 hafa látið lífið í óeirðunum þar í landi frá því á miðvikudaginn.

Skálmöld hefur ríkt í Kenía frá því forsetakosningar fóru fram þar í landi í lok síðasta árs. Kibaki, forseti landsins, náði endurkjöri en stjórnarandstæðingar telja að hann hafi sigrað með svikum.

Þriggja daga skipulögðum mótmælum stjórnarandstæðinga lýkur í dag en að minnsta kosti 12 hafa látið lífið í átökum vegna þeirra. Nú síðast í morgun lést einn þegar hann var skotinn með eitraðri ör.

Stjórnarandstæðingar ætla þó ekki láta af andstöðu og hafa boðað breyttar áherslur í næstu viku. Munu þeir meðal annars hvetja fólk til að sniðganga fyrirtæki sem teljast vera hliðholl stjórn Kibakis.

Von er á Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, til Kenía á næstu dögum og mun hann reyna miðla málum milli Kibaki og Odega, leiðtoga stjórnarandstöðunnar.

Málamiðlanir Afríkubandalagsins hafa hinga til ekki skilað neinum árangri en talið er að allt að eitt þúsund manns hafi látið lífið í átökum frá því forsetakosningarnar fóru fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×