Erlent

Segja flugstjóra Boeing þotunnar hetju

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands hrósaði flugstjóra farþegaþotunnar sem brotlenti á Heathrow flugvelli í gær fyrir fagmennsku. Brown var einmitt staddur á Heathrow og tafðist flug hans til Kína vegna atviksins. Willie Walsh yfirmaður British Airways flugfélagsins sem á þotuna segir flugstjórann og áhöfn hans hetju.

Rannsókn er hafin á því af hverju Boeing 777 vélin steyptist niður og brotlenti nokkur hundruð metrum frá flugbrautinni. Mikil mildi þykir að vélin sem var með 136 farþega um borð lenti ekki á húsum og fjölförnum vegi við flugvöllinn. Nítján manns slösuðust í brotlendingunni.

Forsætisráðherrann sagði „Ég tel að rétt að bera lof á yfirvegun og fagmennsku áhafnarinnar og flugstjóranum fyrir hvernig til tókst með lendinguna."

Walsh sagði að áhöfnin hefði sýnt mikla hetjudáð og flugfélagið væri stolt af starfsfólki sínu. Burkill flugstjóri hefur 20 ára reynslu. Hann er 43 ára og býr í Worchester ásamt konu sinni Lynn og þremur ungum sonum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×