Erlent

Áfram átök á milli lögreglu og mótmælenda í Kenía

Lögreglumenn í Naíróbí gráir fyrir járnum.
Lögreglumenn í Naíróbí gráir fyrir járnum. MYND/AP

Stjórnarandstæðingar í Kenía héldu í dag áfram mótmælum sínum á götum ýmissa borga landsins og hefur komið til átaka á milli þeirra og lögreglu í nokkrum tilvikum.

Þetta er annan daginn í röð sem mótmælendur láta í sér heyra en þeir eru afar ósáttir við niðurstöður forsetakosninga í landinu í lok síðasta árs. Þar var Mwai Kibaki, forseti landsins, endurkjörinn. Segja stjórnarandstæðingar að hann hafi sigrað með svikum.

 

 

Eftir því sem féttamaður BBC í landinu segir hafa tveir verið skotnir í fátækrahverfi í Naíróbí, höfuðborg Kenía, í dag og þá hefur komið til átaka á milli lögreglu og mótmælenda í Kisumu í vesturhluta landsins. Fjórir létust í átökum stríðandi fylkinga í gær.

 

Sannkölluð óöld hefur ríkt í landinu frá því að kosningarnar fóru fram og hafa málamiðlanir Afríkubandalagsins ekki borið árangur. Raila Odinga, leiðtogi stjórnarasndstöðunnar í Keníu, hefur hvatt þjóðir heims til að beita ríkisstjórn Kenía viðskiptaþvingunum til að knýja á um friðsamlega lausn. Eftir því sem segir á vef BBC hefur Evrópusambandið í hyggju að draga úr fjárhagsaðstoð við ríkisstjórnina til að þrýsta á hana.

 

Hins vegar hafa Sameinuðu þjóðirnar reynt að koma þeim sem eiga um sárt að binda vegna átakanna til aðstoðar, en 250 þúsund manns hafa yfirgefið heimili sín vegna ástandsins og um 600 eru látnir á þeim tæpa mánuði sem liðinn er frá því að átökin brutust út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×