Erlent

Norski olíusjóðurinn er fyrirmynd alþjóðlegra fjárfesta

Norski fáninn blaktir við olíuborpall.
Norski fáninn blaktir við olíuborpall.

"Siðareglur norska olíusjóðsins hafa haft mikil áhrif á fjárfesta víða um heim þegar kemur að fjárfestingum í fyrirtækjum. Við vitum að margir fjárfestar í Evrópu, Bandaríkjunum og í Kanada, taka sjóðinn til fyrirmyndar". Þetta kom fram á ráðstefnu norska fjármálaráðuneytisins sem haldin var í Osló í gær, undir yfirskriftinni Fjárfest í framtíðinni.

Olíusjóður Norðmanna er stærsti lífeyrissjóður í heiminum, en hann hljóðar upp á rúmlega 20.000 milljarða íslenskra króna og er ætlað að standa straum af lífeyrisskuldbindingum komandi kynslóða.

Samkvæmt siðareglum olíusjóðsins má einungis fjárfesta til langs tíma og mest 5% í hverju fyrirtæki. Sjóðurinn á nú í meira en 7.000 fyrirtækjum víða um heim. Sérstök siðanefnd útbýr lista yfir alþjóðleg fyrirtæki sem talin eru brjóta gróflega gegn mannréttindum, framleiða vopn eða ýta undir barnaþrælkun og veitir nefndin norska fjármálaráðuneytinu ráð um það hvaða fyrirtæki ber að útiloka frá sjóðnum.

"Markmiðið sjóðsins er vitaskuld að græða pening, en á sama tíma er brýnt að fjárfesta ekki í fyrirtækjum sem stríða gegn siðareglunum. Við viljum tryggja að peningarnir sem tilheyra norsku þjóðinni séu ekki notaðir í vafasömum tilgangi. Þegar við ákveðum að útiloka fyrirtæki frá sjóðnum, eins og til dæmis bandaríska fyrirtækið Walmart, vegna stórfelldra brota á vinnurétti starfsmanna þess í þróunarríkjunum, þá hefur það mikil áhrif á alþjóðamörkuðum, enda stærð og markaðsvirði olíusjóðsins gríðarlegt. Siðareglurnar stuðla að því að lyfta viðskiptasiðferði fyrirtækja á hærra plan og kannski breyta heiminum örlítið til hins betra í leiðinni," sagði Gro Nystuen, formaður siðanefndar norska olíusjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×