Erlent

Loksins sigraði Romney

MYND/AFP

Fréttaskýrendur eru farnir að líkja forkosningunum í Bandaríkjunum sem rússibanaferð þar sem allt getur gerst. Og nú var komið að Mitt Romney sem vann forkosningar Repúblikana í Michigan nokkuð örugglega.

Hillary Clinton vann táknrænan sigur Demókrata, en keppinautar hennar drógu nöfn sín til baka úr forkosningunni eftir að demókrataflokkurinn sagði að niðurstöður yrðu ekki virtar í refsingarskyni við Michiganríki, sem færði dagsetningu kosninganna fram á dagatalinu.

Mitt Romney stefnir að því að verða fyrsti mormóninn í sögunni sem kosinn er forseti Bandaríkjanna og hann þurfti sárlega á sigri í Michigan að halda. Sigur hans var nokkuð öruggur þegar upp var staðið, Romney hlaut 39% atkvæða. Næstur kom John McCain með 30% og Mike Huckabee varð þriðji með 16% atkvæða.

Það hjálpaði Romney mikið að hann var svo gott sem á heimavelli í Michigan, er fæddur og uppalinn þar og er fyrrum ríkisstjóri í nágrannafylkinu Massachussetts. Romney hefur eytt gífurlegum fjárhæðum í baráttu sinni og ef hann hefði ekki náð sigri í Michigan voru fréttaskýrendur á einu máli um að baráttunni væri lokið hjá honum.

Eftir sigur sinn í nótt sagði Mitt Romney við stuðningsmenn sína að þetta væri upphafið að endurkomu hans í baráttuna við að verða valinn forsetaefni Repúblikanaflokksins.

Sigur Romney þýðir að nú er allt opið og erfitt að spá um hver sé líklegastur til að standa uppi sem sigurvegari. Og nefnt er sem dæmi að þungaviktarmaðurinn Rudy Guliani, fyrrum borgarstjóri New York borgar hefur enn ekki hafið sína baráttu af krafti. Það gerir hann fyrst í Flórída undir lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×