Erlent

Bundu hvalverndunarsinna við mastur hvalveiðiskips

Japanskir hvalveiðimenn voru ekki að tvínóna við hlutina þegar tveir hvalaverndunarsinnar réðust um borð í skip þeirra í morgun til að mótmæla hvalveiðum Japana í Suður Íshafi. Tvímenningarnir voru bundnir við mastur hvalveiðiskipsins.

Grænfriðungar fundu hvalveiðiflota Japana í Suður-Íshafi um síðustu helgi. Þá komu liðsmenn Sea Shephard undir forystu Paul Watson á vettvang - en samtökin og hann eru alræmd á Íslandi fyrir að hafa sökkt hvalveiðiskipunum Hvalur sex og Hvalur sjö í Reykjavíkurhöfn í nóvember 1986 og unnið síðan skemmdir á Hvalstöðinni í Hvalfirði.

Liðsmenn um borð í skipi Sea Shepherd - Steve Irwin, sem nefnt er í höfuðið á krókódílafangaranum heitnum - reyndu ítrekað að ná talstöðvarsambandi við hvalveiðiskiptið Yushin Maru í gær. Þegar það gekk ekki tókst tveimur liðsmönnum samtakanna í gærkvödi að komast um borð og var það ætlun þeirra að afhenda skipstjóra skrifleg mótmæli við veiðum.

Áhöfn skipsins tók á móti gestunum af hörku og batt þá við talstöðvarmastur skipsins. Þar munu þeir enn þrátt fyir kröfur samtakanna um að japönsku hvalveiðimennirnir láti þá lausa. Talsmaður Sea Shepherd segir málið stefna í milliríkjadeilu en mennirnir eru frá Ástralíu og Bretlandi. Samtökin hafa óskað eftir liðsinni þarlendra stjórnvalda í málinu.

Ástralar eru andvígir veiðnunum. Dómstóll þar í landi úrskurðaði í gær að Japanar hefðu brotið gegn alþjóðalögum með veiðum á verndarsvæði Ástrala í Suður Íshafi. Dómstóllinn hefur þó enga lögsögu utan Ástralíu og dómurinn því aðeins táknrænn. Hann gæti þó orðið til að skaða samskipti ríkjanna því Japanrar segjast ekki hafa brotið gegn nokkrum lögum með veiðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×