Erlent

Moon segir Störe hafa verið skotmark talibana

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir utanríkisráðherra Noregs og sendinefnd hans hafa verið skotmark talibana sem réðust á hótel í Kabúl í Afganistan í gær. Ráðherrann sakaði ekki en norskur blaðamaður var meðal þeirra sex sem féllu. Utanríkisráðherra fordæmir árásina. Hún segir íslenskum friðargæsluliðum óhætt enda á afgirtu svæði.

Fjórir menn réðust inn á Serena-hótelið með handsprengjum og byssuskothríð. Þeir felldu alls fjóra á leið sinni inn á hótellóðina þar sem einn mannanna sprengdi sig í loft upp.

Blaðamaður norska Dagblaðsins og starfsmaður norska utanríkisráðuneytisins særðust en norsk sendinefnd með Jonas Gahr Störe,utanríkisráðherra í fararbroddi var stödd á hótelinu. Norski blaðamaðurinn lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Utanríkisráðherrann sakaði ekki.

 

Árásin í gær mun sú fyrsta sem beint er gegn hóteli í Kabúl frá falli talibanastjórnarinnar 2001.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fullyrðir að norska sendinefndin - og þar með norski utanríkisráðherran - hafi verið skotmörk talibananna.

Um fimm hundruð norskir friðargæsluliðar eru að störfum í Afganistan og var Gahr Störe þangað kominn til að hitta fulltrúa þeirra og helstu leiðtoga í landinu.

Þrettán Íslendingar á vegum friðargæslunnar eru að störfum hjá Atlantshafsbandalaginu í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×