Erlent

Segja ekki koma til greina að skila aröbum landi

Harðlínumenn í Ísrael segja ekki koma til greina að skila landi sem þeir tóku af aröbum 1967. Bandaríkjaforseti segir það liðka fyrir friðarsamkomulagi Ísraela og Palestínumanna sem hann segir geta orðið áður en árið er úti.

Tony Blair, sérlegur sendifulltrúi fjórveldanna í friðarviðræðunum fyrir botni Miðjarðarhafs, átti í gær fund með Bush Bandaríkjaforseta í Jerúsalem. Forsetinn kom til landsins helga í fyrradag og hefur átt fundi með Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Abbas, forseta Palestínumanna.

Á blaðamannafundi í Jerúsalem í gær sagði Bush að Ísraelar yrðu að skila því landi Araba sem þeir hefðu hertekið í sex daga stríðinu 1967. Annars yrði ekki hægt að stofna lífvænlegt Palestínuríki.

Hann sagði einnig mikilvægt að skoða það hvort rétt væri að greiða flóttamönnum Palestínumanna bætur. Hann sagðist einnig sannfærður um að Ísraelar og Palestínumenn myndu semja um frið áður en hann léti af embætti í janúar á næsta ári.

Stjórnmálaskýrendur benda á að Bandaríkjaforseti hafi ekki fyrr verið jafn skýr og skorinorður í tali um deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Eftir blaðamannafundinn snæddi forsetinn kvöldverð með Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og helstu ráðherrum í ríkisstjórn hans.

Samkvæmt heimildum ísraelska blaðsins Jerusalem Post fengu Olmert og Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, að sjá yfirlýsingu forsetans á fundum í fyrradag og í gær og var tekið mið af ábendingum og tillögum þeirra.

Harðlínumenn í Ísrael eru uggandi vegna ummæla Bush og segja ekki koma til greina að skila landi. Nokkur hundruð þeirra mótmæltu yfirlýsingu forsetans í Jerúsalem í gærkvöldi.

Heimsókn Bush til landsins helga lauk í morgun eftir að hann skoðaði helgistaði kristinna manna í Galíleu og einnig Yad Vashem, Helfararsafnið í Jerúsalem.

Skömmu fyrir hádegið hélt forsetinn ferð sinni um Mið-Austurlönd áfram og fór til Kúvæt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×