Erlent

Bush býst við friðarsamkomulagi áður en hann lætur af embætti

George Bush Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í dag að hann teldi að hann reiknaði með að Ísraelar og Palestínumenn myndu skrifa undir friðarsamninga áður en hann léti af embætti sem forseti Bandaríkjanna eftir ár.

Bush er nú á ferð um Miðausturlönd og átti í morgun fund með Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, á Ramallah á Vesturbakkanum. „Ég er þess fullviss að með góðri aðstoð geti ríki Palestínu orðið að veruleika," sagði Bush enn fremur á blaðamannafundi með Abbas.

Þá sagðist Bush andvígur öllum aðgerðum Ísraels sem græfu undan öryggissveitum Abbas forseta, en Abbas hefur sakað Ísraela um að taka fram fram hendurnar á öryggissveitunum á Vesturbakkanum.

Bush er í sinni fyrstu heimsókn til Ísraels og Palestínu en með henni vonast hann til að fylgja eftir ákvörðunum sem teknar voru á fundi í Annapolis í Bandaríkjunum í haust, en þar var lagður grunnur að friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×