Erlent

Tuttugu og tveir látnir í sjálfsmorðsárás í Lahore

Tuttugu og tveir eru látnir og sextíu eru sagðir særðir eftir sjálfsmorðsárás í borginni Lahore í Pakistan í morgun.

Eftir því sem erlendir miðlar greina frá gekk maður upp að hópi lögreglumanna fyrir utan hæstarétt í Lahore og sprengdi sig í loft upp með fyrrgreindum afleiðingum. Flestir hinna látnu voru lögreglumenn sem höfðu safnast saman fyrir utan dómhúsið vegna fyrirhugaðra mótmæla lögfræðinga. Ekki liggur fyrir hver stóð á bak við árásina.

Ótryggt ástand hefur verið í Pakistan síðustu mánuði og fjölmargar sjálfsmorðsárásir hafa verið gerðar þar sem hundruð manna hafa fallið. Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, var skotin í lok síðasta árs og árásarmaðurinn sprengdi svo sjálfan sig í loft upp þannig að yfir 20 létust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×