Erlent

Tveir handteknir vegna sprengjutilræðis í Madríd árið 2006

Frá vettvangi árásarinnar.
Frá vettvangi árásarinnar. MYND/AP

Lögregla á Spáni hefur handtekið tvo menn í Baskahéruðum landsins sem grunaðir eru um að hafa staðið að sprengjutilræði á Barjas-flugvellinum í Madríd árið 2006.

Tveir létust í tilræðinu og það leiddi til þess að spænsk stjórnvöld bundu enda á friðarviðræður við ETA, aðskilnaðarhreyfingu Baska. Að sögn innanríkisráðherra Spánar voru mennirnir tveir handteknir á sunnudag og á öðrum þeirra fannst kort sem leiddi til þess að lögregla fann um 125 kíló af sprengjugerðarefnum á stað í Huesca-héraði á Norður-Spáni. Einn maður er enn eftirlýstur vegna tilræðisins sem átti sér stað 30. desember 2006.

ETA hafði lýst yfir vopnahléi í mars 2006 en viðurkenndi að hafa staðið á bak við árásina í Madríd. Það leiddi til þess að stjórnvöld slitu friðarviðræðum við ETA. Í júní fyrra afturkallaði ETA svo vopnahlé sitt. Yfir átta hundruð manns hafa fallið í baráttu ETA fyrir sjálfstæðu ríki Baska í norðurhluta Spánar sem staðið hefur yfir í rúma þrjá áratugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×