Erlent

Sér nýtt tækifæri til friðar

Bush Bandaríkjaforseti kom í opinbera heimsókn til Ísraels í morgun. Hann sagðist við komuna sjá nýtt tækifæri til friðar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þetta er fyrsta heimsókn Bush til Ísraels síðan hann varð forseti Bandaríkjanna fyrir sjö árum. Mestan þann tíma forðaðist hann beina aðild að sáttaumleitunum Ísraela og Palestínumanna en nú þegar ár er eftir af embættissetu hans boðar hann aukna áherslu á málefni Palestínu.

Í ræðu á flugvellinum í Tel Aviv í morgun sagðist hann sjá nýtt tækifæri til friðar í landinu helga og fyrir frelsi í heimshlutanum öllum. Shimon Peres forseti og Ehud Olmert forsætisráðherra tóku á móti honum. Bandarískir fánar eru um allt í Jerúsalem.

Á morgun ræðir Bush við Mahmoud Abbas, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, í Ramallah. Síðar í þessari ferð heimsækir hann Kúveit, Bahrain, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádi-Arabíu og Egyptaland.

Annar stjórnmálamaður sem nú er á svæðinu er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra. Hún er í Egyptalandi þar sem hún ræðir meðal annars við framkvæmdastjóra Arababandalagsins.

Meðan á heimsóknum stendur halda ofbeldisverkin áfram. Palestínskir skæruliðar á Gaza-ströndinni skutu í morgun flugskeytum og sprengjum yfir á byggðir í Ísrael. Eitt flugskeyti hæfði hús þar sem par með lítið barn býr. Ísraelar skutu flugskeytum til baka, felldu einn og særðu sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×