Erlent

Hillary Clinton sigraði óvænt í New Hampshire

Hillary Clinton sigraði mjög óvænt í forkosningunum í New Hampshire þrátt fyrir að allar skoðanakannanir hefðu sýnt hið gagnstæða. John McCain er öruggur sigurvegari hjá Repúblikönum

Gífurleg þátttaka var í kosningunum í New Hampshire og tók um þriðjungur íbúa fylkisins þátt í þeim. Hillary Clinton hlaut 39% atkvæða en Barak Obama 36%.

Fréttaskýrendur segja að sigur Clinton sé byggður á miklum stuðningi meðal skráðra demókrata og kvenna. Kvennafylgið skilaði sér loks til Hillary og er talið að atvikið í fyrradag þar sem hún táraðist í fámennu kaffiboði hafi haft úrslitaáhrif hvað stuðning meðal kvenna varðar.

Hillary var að vonum ánægð með úrslitin og sagði eftir þau að nú skildu demókratar gefa Bandaríkjunum þá endurkomu sem New Hampshire gaf henni.

Hinn rúmlega sjötugi John McCain var öruggur sigurvegari hjá Repúblikönum með 37% en næstur kom Mitt Romney með 32% og Mike Huckabee náði óvænt þriðja sætinu með 11% atkvæða.

Úrslitin þykja mikið áfall fyrir Romney þar sem hann hafði eytt miklum fjárhæðum í kosningabaráttu sína og var nánast á heimavelli. McCain er hinsvegar glaður í bragði enda voru margir búnir að afskrifa hann í pólitík fyrir þessa kosningabaráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×