Erlent

Örvæntingarfullar mæður leita ásjár ABC barnahjálpar

Örvæntingarfullar kenískar mæður hafa leitað ásjár með börn sín á heimili ABC barnahjálpar í Naíróbí. Íslenskur sjálfboðaliði þar segir almenning óttasleginn vegna ástandsins í landinu. Keníumenn sem vanir eru að taka á móti flóttamönnum frá nágrannalöndum sínum, flýja nú í þúsundavís yfir landamærin, flestir til Úganda.

Í Kibera fátækrahverfinu í Naíróbí fór fólk til messu í lútherskri kirkju sem lagður var eldur að í vikunni. Þar var einnig beðið fyrir því að fólk gæti horfið aftur til fyrri lifnaðarhátta án ótta um líf sitt.

Hörmungar blasa við íbúum víða í fáækrahverfum eftir ættbálkaerjur síðustu viku. 250 þúsund manns hafa flúið heimili sín og hálf milljón manna er í mikilli neyð og þörf eftir aðstoð hjálparstofnana.

Anna M. Þ. Ólafsdóttir sjálfboðaliði ABC barnahjálpar á heimili þess í austurhluta Naíróbí segir íbúa óttaslegna um framtíðina og áhrif ástandsins á líf þeirra en nú er farið að bera á matarskorti. Hún segir að fæstir hafi átt von á jafn miklum óeirðum og geisuðu í síðustu viku.

ABC barnahjálp rekur heimili í Naíróbí fyrir 200 börn. Anna segir að starfsfólk hafi fengið fréttir af fjölskyldu eða vinum sem hafi lent í því að brennt hafi verið ofan af því og konur hafi leitað til heimilisins með lítil börn af því þær væru á vergangi.

Anna segir lögreglu hvetja fólk til að fara ekki ekki út að óþörfu.

Almenningur býður nú eftir hvort eitthvað verði af fundi sem stjórnarandstöðuleiðtoginn Raila Odinga hefur boðað til á þriðjudag. Þá er búist við frekari óeirðum en stjórnarandstaðan krefst þess að Kibaki forseti segi af sér.

Anna segir grátlegt að fylgjast með í návígi aðstæðum sem hún hafi séð í fréttum heima frá fjarlægum löndum. Ástandið hafi mikil áhrif á íbúana sem báru von í brjósti um betri tíð með nýjum forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×