Erlent

Saakashvili sigurvegari eftir fyrstu tölur

Michel Saakashvili forseti Georgíu er með 58 prósenta fylgi eftir að sjö prósent atkvæða hafa verið talin í forsetakosningunum sem fram fóru í landinu í gær. Stjórnarandstaðan í Georgíu hvetur stuðningsmenn til mótmæla í höfuðborginni Tblisi en þeir segja að útgönguspár hafi verið falsaðar.

Samkvæmt skýrslu sem öryggis og samvinnustofnun Evrópu birti í dag segir að í stærstum dráttum hafi alþjóðlegum stöðlum verið fylgt við kosningarnar en einhverjir vankantar hefðu þó verið á þeim.

Samkvæmt útgönguspám vann Saakashvili forseti 52 prósenta sigur í forsetakosningunum sem hann boðaði til eftir að hafa barið niður mótmæli stjórnarandstöðunnar gegn sér í nóvember. Kosningarnar þykja prófsteinn á lýðræði í Georgíu sem áður var hluti Sovétríkjanna. Sakasvhili forseti sagði að með þeim kæmi í ljós hvort hann hefði í raun stuðning landa sinna.

Levan Gachechiladze helsti keppinautur forsetans og leiðtogi níu flokka stjórnarandstöðunnar fékk 28 prósenta fylgi samkvæmt spánum. Hann hefur nú hvatt stuðningsmenn sína til mótmæla og segir niðurstöður útgönguspánna falsaðar.

Saakashvili er lögfræðimenntaður í Bandaríkjunum og komst til valda eftir uppreisn alþýðu árið 2003. Á valdatíma hans hefur Georgía styrkt tengsl við Nato og Evrópusambandið. En samband við Moskvu hefur versnað og efnahagur landsins hefur orðið harkalega fyrir barðinu á viðskiptabanni sem Rússar settu á vörur frá landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×