Erlent

Féll niður af 47. hæð og lifði af

Gluggaþvottamaður í New York var svo sannarlega ekki feigur þegar hann féll niður af 47. hæð háhýsis á Manhattan í síðasta mánuði og lifði af.

Alcides Moreno sem er 37 ára innflytjandi frá Equador féll af 47. hæð, næstum 150 metra, 7. desember þegar vinnupallur sem hann og bróðir hans notuðu við gluggaþvott gaf sig og þeir hröpuðu til jarðar. Bróðir hans lést við fallið. Moreno er með fullri meðvitund, getur hreyft útlimi, andað sjálfur og talar við fjölskyldu sína.

Læknar við Weill Cornell sjúkrahúsið í New York tilkynntu á fimmtudag að bati hans væri með ólíkindum.

Ástand Moreno var hörmulegt þegar hann var lagður inn á spítalann. Báðir fæður og hægri handleggur voru margbrotnir. Hann var með alvarlega áverka á bringu, kvið og mænu og fékk tvöfalt blóðmagn fyrstu klukkustundirnar. Læknar komu fyrir slöngu í heila hans til að minnka bólgur og skáru kvið hans opinn til að minnka þrýsting á líffæri. Hann var settur í öndunarvél, en ástand hans var svo óstöðugt að læknar óttuðust að minnsta hreyfing gæti orðið honum að bana. Þess vegna framkvæmdu þeir fyrsta uppskurðinn án þess að færa hann á skurðstofu.

Philip Barrie yfirlæknir skurðlækninga á Presbyterian sjúkrahúsinu í New York segist ekki vita hvað eigi að kalla þenna ótrúlega bata. Þeir sem trúi á kraftaverk geti svo sannarlega kallað þetta það.

Helmingur þeirra sem falla af fjórðu hæð látast við fallið. Rannsókn á því af hverju vinnupallinn gaf sig er enn í gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×