Erlent

Norræna herdeildin til liðs við Evrópusambandið

Sögulegt hernaðarsamstarf Svía, Norðmanna og Finna, auk Eista og Íra hefst í upphafi ársins. Þessar þjóðir senda í sameiningu 2.800 manns í herlið Evrópusambandsins , eða í svokallaða norræna herdeild

Svíar leiða hópinn og leggja til 2.300 hermenn. Danir hafa aftur á móti gert fyrirvara við samstarfið og taka ekki þátt í því. Reiknað er með að Danir gangi til þjóðaratkvæðis um málið fljótlega.

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana lagði til í nýársávarpi sínu að horfið yrði frá þeim fjórum fyrirvörum sem Danir hafa gert við ESB-samstarfið, þar með talið fyrirvara við varnarsamstarfi. Ef Danir hverfa frá fyrirvörum að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munu þeir strax verða hluti af norrænu herdeildinni.

Í Noregi, sem ekki er aðili að ESB, er aukinn áhugi fyrir norrænu varnarsamstarfi , þótt það sé innan vébanda ESB. Bjørn Jacobsen talsmaður varnarmála Sósíalíska vinstriflokksins segir í viðtali við Dagsavisen að hann sé hlynntur auknu norrænu varnarsamstarfi. Það er mikill ávinningur af slíku enda hafa norskir og sænskir yfirmenn í varnarliðinu bent á efnahagslegan ávinning af auknu samstarfi við Svía um kaup á kafbátum og öðrum hernaðartólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×