Erlent

Obama og Huckabee sigruðu í Iowa

Það eru þeir Barak Obama og Mike Huckabee sem standa uppi sem sigurvegarar eftir forkosninguna í Iowa sem lauk í nótt

Sigur Obama í forkosningum Demókrataflokksins var nokkuð öruggur en hann hlaut rúm 38% atkvæða. Næstur á eftir honum kom John Edwards með 30% atkvæða.

Úrslitin eru mikið áfall fyrir Hillary Clinton sem náði aðeins þriðja sæti með með 29% atkvæða. Hún gat ekki leynt vonbrigðum sínum þegar niðurstaðan lá fyrir en segir að hún og stuðningsmenn hennar muni gera betur í New Hampshire í næstu viku.

Blökkumaðurinn Obama var að vonum ánægður með úrslitin og segir að þau sýni að kjósendur í Bandaríkjunum séu reiðubúnir að reyna eitthvað nýtt.

Sigur heittrúarmannsins Mike Huckabee hjá Repúbhlikönum var öruggur en hann náði 34% atkvæða. Næstur honum kom Mitt Romney með 25% atkvæða. Huckabee var að vonum ánægður með úrslitin en Romney er í miklum vandræðum þar sem hann hafði eytt gífurlegum upphæðum í kosningabaráttu sína í ríkinu.

Tveir af frambjóðendum Demókrataflokksins, öldungardeildarþingmennirnir Joe Biden og Chris Dodd hafa hætt baráttu sinni fyrir útnefningu en báðir fengu minni en 1% fylgi í Iowa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×