Erlent

Auglýsingastríð Clinton og Obama

Obama og Clinton í sjónvarpskappræðum á CNN sjónvarpsstöðinni.
Obama og Clinton í sjónvarpskappræðum á CNN sjónvarpsstöðinni. MYND/AFP

Barack Obama og Hillary Clinton berjast nú um atkvæði í Texas og Ohio nokkrum dögum fyrir forkosningar í ríkjunum sem gætu skipt sköpum fyrir Clinton. Bæði framboð Obama og Bill Clinton hafa lýst því yfir að Hillary verði að ná góðum árangri í ríkjunum á þriðjudag ef hún á að halda áfram baráttu fyrir tilnefningu Demókrata.

Á þriðjudag verður einnig kosið í Vermont og á Rhode Island.

Kosningaskrifstofa Clinton hleypti af stokkunum nýrri auglýsingu í Texas í gær. Þar er Clinton lýst sem frambjóðandanum með mestu reynsluna í utanríkismálum. Í auglýsingunni hringir sími látlaust undir myndum af sofandi börnum.

„Þitt atkvæði ákveður hver svarar símanum," segir í auglýsingunni. „Hvort sem það er einhver sem þekkir leiðtoga heimsins, þekkir herinn. Einhver með reynslu sem er tilbúinn að leiða í hættulegum heimi." Þulurinn spyr síðan; „Hver vilt þú að svari símanum?"

Í framboðsræðu í Waco í Texas sagðist Hillary skilja hvað það þýddi þegar síminn hringdi klukkan þrjú að morgni. Þá væri ekki tími til að ráðfæra sig við ráðgjafa, gera könnun um hvað verði vinsælt eða ekki. Þá þurfi að taka ákvarðanir.

Obama viðurkenndi að auglýsingin vekti upp góða og gilda spurningu, en sagði jafnframt að hún ýtti undir ótta fólks. Þannig ætlaði Hillary sér að ná inn „óttaatkvæðum."

Herbúðir Obama svöruðu auglýsingunni með annarri auglýsingu þar sem kjósendur voru beðnir um að íhuga hvort hefði betri dómgreind klukkan þrjú að morgni.

„Ætti forsetinn ekki að vera sá eini sem hefði dómgreind og kjark til að standa gegn stríðinu í Írak frá byrjun, sem skyldi að hin raunverulega ógn gegn Bandaríkjunum var al-Kaída í Afganistan, en ekki Írak," segir í auglýsingu Obama.

Hér má nálgast auglýsingu Clinton og viðbrögð Obama á fréttavef CNN.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×