Erlent

Íslendingar hjá France 24 í áfalli

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Nicolas Sarkozy forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy forseti Frakklands.

Ákvörðun Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta um að franska fréttastöðin France 24 hætti útsendingum á ensku og arabísku kemur starfsmönnum algjörlega í opna skjöldu. Þetta segir Sara M. Kolka fréttaframleiðandi sem hefur unnið að uppbyggingu stöðvarinnar frá því henni var hleypt af stokkunum fyrir rétt rúmu ári síðan.

Á blaðamannafundi í gær tilkynnti Sarkozy að hann væri ekki tilbúinn að verja skattfé borgaranna í sjónvarpsstöð sem ekki tali frönsku. Ný fréttastöð France Monde taki við af France 24 sem muni sjónvarpa fréttum á frönsku frá sjónarhóli Frakka um allan heim. France 24, TV5 og Radio France Internationale muni sameinast henni.

„Starfsfólkið er í áfalli yfir ákvörðuninni. Við höfðum beðið hennar frá því í nóvember og fólk veit ekki hvort það á að hlæja eða gráta," segir Sara. Hún segir að síðustu mánuði hafi ráðgjafar á vegum forsetans unnið að því að afla gagna um gengi stöðvarinnar sem hefur verið einstaklega gott, sérstaklega í Afríku. Bernard Kouchner utanríkisráðherra og Christine Albanel menntamálaráðherra séu auk þess fylgjandi því að halda óbreyttu fyrirkomulagi.

Um er að ræða þrjár stöðvar France 24 sem senda út á frönsku, ensku og arabísku. Stöðin var sett á fót til að keppa við ensku fréttastöðvarnar CNN og BBC World auk arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Aljazeera sem hóf útsendingar á ensku fyrir skemmstu. Sara segir starfsfólkið sammála um að framtíðin sé að sjónvarpa á þessum tveim tungumálum. „Það er af sem áður var þegar franska var alþjóðatungumál," segir Sara.

Tvær Íslenskar konur vinna hjá France 24 en þar starfa í allt um 350 manns. Sara og Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem vinnur einnig sem fréttaframleiðandi og hóf störf á seinni hluta síðasta árs. Á næstu vikum kemur í ljós hvað verður með framtíð starfsfólksins sem allt er fastráðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×