Erlent

Odinga hafnar samstarfi við Kibaki

Fólk gengur ránshendi um verslanir sem hefur verið lokað vegna óeirðanna.
Fólk gengur ránshendi um verslanir sem hefur verið lokað vegna óeirðanna. MYND/AFP

Mwai Kibaki forseti Kenía segist tilbúinn að mynda þjóðstjórn til að binda enda á ringulreiðina í landinu eftir afar umdeild úrslit forsetakosninganna síðustu helgi. Stjórnarandstaðan hafnar samstarfi og krefst þess að kosið verði á ný.

Kibaki forseti gaf út tilkynningu eftir fund hans með bandaríska sendifulltrúanum Jendayi Frazer sem nú er í Kenía til að miðla málum. Í henni sagði að forsetinn væri tilbúinn að mynda þjóðstjórn sem sameinaði ekki einungis þjóðina, heldur ynni að sáttum milli andstæðra fylkinga. Raila Odinga stjórnarandstöðuleiðtogi segist ekki hafa fengið boð frá Kibaki og afstaða stjórnarandstöðunnar sé óbreytt, hann verði að láta af embætti. Efna eigi til forsetakosninga á ný þar sem Kibaki sitji ólöglega í embætti.

Enn er ólga víða í landinu,og í dag var meðal annars kveikt í kofum í Mathare fátækrahverfinu þar sem fylkingar forsetans og stjórnarandstöðunnar börðust með sveðjum. Myndir sýna lögreglu skjóta að hópnum með þeim afleiðingum að minnsta kosti einn lést samkvæmt kvikmyndatökumanni AP fréttastofunnar á staðnum. Fjöldi manns mun hafa orðið fyrir skotum lögreglu, en stjórnvöld halda því fram að vopnaðar sveitir beiti ekki ofbeldi.

Frá því úrslit kosninganna urðu ljós síðustu helgi hafa pólitísk átök umbreyst í ættbálkaerjur á milli Kikuyu ættbálks Kibaki forseta og Luo ættbálks Odinga.

Gripdeildir voru víða í dag og matarskorts er farið að gæta eftir óöldina síðustu viku. Íbúar fátækrahverfa í Naíróbí biðu í röðum eftir mat frá sjálfboðaliðum hjálparstofnana.

Meira en 350 manns hafa látist og 250 þúsund flúið heimili sín í liðinni viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×