Erlent

Vill draga Chavez fyrir dómstóla fyrir þjóðarmorð

Hugo Chavez, forseti Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela.

Spennan milli stjórnvalda í Kólumbíu og Venesúela virðist hafa magnast enn frekar því Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu, segist munu óska eftir því að Alþjóðaglæpadómstólinn ákæri Hugo Chavez, forseta Venesúela, fyrir þjóðarmorð.

Uribe sakar Chavez um að styðja uppreisnarsamtökin FARC í Kólumbíu sem staðið hafa fyrir blóðugri baráttu undanfarna áratugi. Segja Kólumbíumenn gögn sem fundust í herbúðum samtakanna sanna að stjórnvöld í Venesúela hafi útvegað FARC 300 milljónir dollara. Þessu neita venesúelsk yfirvöld.

Forsaga málsins er sú að kólumbísk yfirvöld sendu á laugardag sprengjuþotur yfir landamæri Ekvadors til þess að ráða af dögum einn af hæst settu leiðtogum FARC-uppreisnarsveitanna, Raul Reyes. Hann fell ásamt 16 af félögum sínum.

Stjórnvöld mótmæltu því að Kólumbíumenn hefðu ekki leitað leyfis til að fljúga yfir landamærin og kom Chavez þeim til stuðnings. Hafa bæði Ekvador og Venesúela sent herlið að landamærum Kólumbíu vegna málsins.

Bush Bandaríkjaforseti hefur blandað sér í málð og sagði Bandaríkjastjórn styðja Kólumbíu í málinu enda hefur lengi andað köldu milli hans og Chavez.

FARC hefur í yfir fjóra áratugi staðið fyrir skæruhernaði í Kólumbíu og barist fyrir því að auði landsins verði skipt á sanngjarnari hátt. Sérfræðingar segja hins vegar að samtökin fjármagni sig meðal annars með kókaínsölu og þá hafa þau tekið hundruð manna í gíslingu í baráttu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×